Herkastalinn

Um eignina

Herkastalinn er eitt merkasta og sögufrægasta hús Reykjavíkur. Það stendur á fallegum stað við Kirkjustræti 2. Húsið er friðað að utan. Verið er að hanna innra skipulag hússins fyrir hótel, veitingastað og bar.

Í Sögu Reykjavíkur segir að Henrik Scheel tukthúsráðsmaður hafi byggt timburhús þar sem nú er Kirkjustræti 2 og hóf þar veitingarekstur sem varð lengi aðal veitinga- og samkomuhús bæjarins. Um 1854 voru þar sýndar leiksýningar og var Skugga-Sveinn frumsýndur þar árið 1862. Þarna starfaði fyrsta sjúkrahúsið í Reykjavík á árunum 1866- 1884. Þar var og aðalbækistöð Læknaskólans fyrst eftir stofnun hans árið 1876. Þá var þar verslun og veitingahús aftur uns Hjálpræðisherinn keypti húsið árið 1895 og opnaði gistiheimili í húsinu hinn 2. apríl 1898 eftir að stabskapteinn Bojesen tók við sem yfirforingi. 

"... og svo varð það að "Herkastala", en er í rauninni mesta skrapatól orðið og hreysi, svo að jafnvel fyrir löngu var norðurveggurinn studdur með staurum, en nú er því aftur hætt ... Auk dansleikjanna voru þar áður sjónleikir og leikið eftir föngum, þótt ekki væri af eins dýrðlegri list og nú tíðkast; en nú er í þessa stað kominn sálmasöngur með simfóní og salteríó og margskonar guðræknisæfingum; þar hefur "Herinn" einnig stofnað gistihús handa fátækum aðkomumönnum og frávillingum, og kostar það afar lítið að fá þar rúm og kaffi, miklu minna en annarsstaðar, og betri viðurgerningur og hjúkrun, því oft eru þessir menn ekki sem bezt á sig komnir, og er þetta mjög virðingarvert og í rauninni "Hersins" bezta verk".

Þetta hús stóð fram undir 1916 því þá lét Hjálpræðisherinn rífa það og reisa í stað þess stórt gisti- og samkomuhús. Í ársbyrjun 1930 kviknaði í húsinu og urðu töluverðar skemmdir á efstu hæðinni sem þá var í byggingu. Í þessu húsi, sem nefnt hefur verið Herkastalinn, var gistiheimili Hjálpræðishersins fram til 2016, eða í tæp100 ár.

Frekari upplýsingar á fyrirspurn@heild.is.